Fréttir berast af því að erfiðlega gangi að manna láglaunastörf í landinu og staðfestir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, að þeir viti mörg dæmi slíks. Útreikningar sýni að laun á almennum vinnumarkaði hafa verið að lækka og nálgist strípaða taxta, enda mikill samdráttur í yfirvinnu.
Þegar svo sé komið veltir fólk því eðlilega fyrir sér hvort ekki sé betra að vera heima, þiggja atvinnuleysisbætur og spara sér margvísleg útgjöld sem eru því samfara að stunda vinnu. Bótafjárhæðin er föst tala og þótt hún sé ekki há séu raunlaun farin að nálgast hana óþarflega mikið að margra mati.
„Við getum eiginlega sagt það að atvinnuveitendur séu komnir í samkeppni við Atvinnuleysistryggingasjóð og það er hættuleg staða,“ segir Gissur.
Þjónustutryggingin, sem er 35 þúsund krónur, fylgir barninu. Ef foreldrið er heima með barninu fær það trygginguna en ef barnið fer á leikskóla eða til dagmóður flyst upphæðin þangað.
Niðurstaða útreikninga velferðarsviðs voru sláandi, að sögn Gissurar. Ef einstætt foreldri kýs að fara út á vinnumarkaðinn þurfa tekjur þess að vera tugum þúsunda króna hærri en atvinnuleysisbætur svo að það standi jafn vel og ef það kysi að vera heima með barnið og þiggja bæturnar. Upphæðin er mismunandi há miðað við samsetningu fjölskyldnanna. Mestu munar ef um er að ræða einstætt foreldri með barn undir 24 mánaða aldri. Í því tilfelli þyrfti viðkomandi að hafa 263 þúsund krónur í laun á mánuði til að jafna atvinnuleyisbæturnar, sem eru 149.523 krónur á mánuði.