Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að tilraun til þess að ná fram lyktum í Icesave-málinu hafi reynst erfiðari og torsóttari en vænst var og er ekki enn séð hvað verður. Þetta kom fram í ræðu Jóhönnu á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem nú er haldinn í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.
Flokkstjórnarfundurinn hófst með ræðu Jóhönnu. Hún fór þar yfir þróun mála á undanförnum mánuðum og ræddi m.a. um Icesave-málið.
„Icesave málið hefur reynst okkur þungbært og tafir á lausn þess hafa þegar valdið þjóðinni miklum skaða,“ sagði Jóhanna. „Málið hefur verið eitt hið erfiðasta sem þjóð og þing hafa gengið í gegnum frá lýðveldisstofnun. Lausn málsins myndi ekki breyta því að það er illt að þjóðin skuli þurfa að ganga í ábyrgð fyrir fjárglæframenn sem nýttu sér hið góða nafn hennar á óábyrgan hátt.
Og okkur finnst sem Evrópusambandið, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, Bretar og Hollendingar hafi ekki tekið sinn hluta af ábyrgðinni af gölluðu regluverki og áhættunni í alþjóðlegum bankarekstri. En við höfum staðið ein í þessari baráttu og ekki fengið stuðning við okkar sjónarmið.“
Efnahagsáætlunin með AGS gæti verið í uppnámi
Jóhann sagði að takist okkur ekki að ljúka Icesave-málinu nú alveg á næstunni mun það tefja og torvelda alla endurreisn, tefja fyrir vaxtalækkun, tefja fyrir afnámi gjaldeyrishafta, tefja fyrir gengishækkun og stofna lánshæfismati ríkisins í stórhættu.
„Tefjist lyktir málsins enn um sinn gæti sú töf orðið okkur sem ríki og sem þjóð jafndýrt ef ekki dýrara en sjálf Icesave skuldin vegna versnandi lánskjara og tafa á endurreisn efnahags- og viðskiptalífs. Það er heldur ekkert launungarmál að efnahagsáætlun okkar með stuðningi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins gæti verið í uppnámi. Eins og á mörgum öðrum sviðum eru við í mjög alvarlegri stöðu og getum ekki leyft okkur að láta eins og til séu auðveldar lausnir.“