Hellismenn leiða eftir fyrstu umferð Íslandsmóts skákfélaga sem fram fór í gærkvöld í Rimaskóla. Hellismenn lögðu eigin b-sveit að velli 8-0. Taflfélag Reykjavíkur vann nokkuð óvæntan 5-3 sigur á Taflfélagi Vestmannaeyja, Íslandsmeistarar Bolvíkingar unnu Fjölni með sama mun í mjög spennandi viðureign. Að lokum sigraði a-sveit Hauka, b-sveit Hauka 6,5-1,5.
Skáfélag Akureyrar og b-sveit Bolungarvíkur leiða í 2. deild. Mátar og c-sveit Taflfélags Reykjavíkur leiða í 3. deild. . D- og e sveitir KR, b-sveit Víkingaklúbbsins og Skákfélag Vinjar leiða í 4. deild.
Önnur umferð fer fram í dag og hefst kl. 11. Þá mætast m.a. í fyrstu deild, tvö efstu liðin, Hellir og Haukar og, liðin í 3. og 4. sæti, Bolvíkingar og TR-ingar.
Keppnin í ár er sú fjölmennasta. Alls taka 56 lið þátt frá 23 félögum í hverri umferð tefla 352 skákmenn. Það þýðir að á fimmta hundruð skákmenn munu taka þátt í þessari miklu skákhátíð um helgina.
Í fyrsta skipti í 35 ára sögu keppninnar tekur þátt kvennasveit en Skákfélag Ósk, sem eingöngu skipa konur tekur þátt í keppninni í fyrsta skipti.