Vill ráða eldra fólk til starfa

Jón Gerald Sullenberger ætlar að opna nýja verslun.
Jón Gerald Sullenberger ætlar að opna nýja verslun. Rax / Ragnar Axelsson

Jón Gerald Sullenbergir stefnir að opnun nýrrar lágvöruverðsverslunar sinnar í október. Hann auglýsir eftir starfsfólki í sunnudagsblaði Morgunblaðsins og segist gjarnan vilja ráða eldra fólk til starfa.

Jón Gerald er búinn að ákveða opnunardaginn en er ekki reiðubúinn að upplýsa hann á þessari stundu. „Það verður einhvern tímann í október,“ sagði Jón Gerald. „Framkvæmdir ganga mjög vel.“

Komið hefur fram að lágvöruverðsverslunin verði til húsa að Dalvegi 10 í Kópavogi, í næsta nágrenni við Kauptorg, Turninn, Smáralind og Lindir. 

Um leið og tilkynnt verður um opnunardag verður svipt hulunni af nafni verslunarinnar. Hingað til hefur verið notast við vinnuheitið Smartkaup. „Það er komið nafn á búðina og það verður alíslenskt nafn. Nafn sem allir Íslendingar eiga geta orðið sáttir við,“ sagði Jón Gerald. Í sumar var efnt til hugmyndasamkeppni um nafn á verslunina.

Jón var spurður hvort lágvöruverðsverslun hans verði á einhvern hátt frábrugðin öðrum slíkum verslunum á Íslandi. „Já, við vonum það. Það eru aðrir eigendur!“ Jón taldi að þetta verði fyrsta skipti í ein 20 ár sem er opnuð ný lágvöruverðsverslun á Íslandi sem stendur fyrir utan verslanakeðjurnar sem fyrir eru. Fyrir eru Kaupás, Samkaup, Nettó og Hagar. 

Í atvinnuauglýsingunni í Morgunblaðinu í dag er m.a. sagt að verslunin óski eftir að ráða „hressa“ eldri borgara. Jón Gerald sagði að þar væri m.a. átt við fólk sem komið er á eftirlaun en vill vinna lengur. „Ég skora á eldri borgara að taka þátt í þessu með okkur. Við erum ein stór fjölskylda sem vinnur saman. Við höfum neytandann að leiðarljósi og okkar yfirmann.“

Jón Gerald sagði að hann ætli að vera mikið í búðinni sjálfur. Verslunarstjóri verður Ólafur Már Ólafsson. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert