Vilja tryggingu fyrir eftirstöðvum

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Kristinn Ingvarsson

Hollendingar og Bretar leggja þunga áherslu á að sett verði trygging fyrir því að Ísland greiði það sem kann að verða ógreitt af Icesave-láninu þegar ríkisábyrgðin fellur niður. Þetta kom fram á fundi Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra með utanríkisráðherrum Breta og Hollendinga, að sögn Ríksiútvarpsins.

Össur átti fund með þeim David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, og Maxime Verhagen, utanríkisráðherra Hollands, áttu í gær í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Össur sagði við RÚV að formleg viðbrögð ríkjanna tveggja liggi ekki fyrir. Hann sagði að snörp orðaskipti hafi verið á fundinum og að ráðherrarnir hafi ræðst við í hreinskilni.

Össur kvaðst hafa kynnt málstað Íslendinga skýrum orðum og viðmælendur hans hafi ekki skafið utan af skoðunum sínum.  Hann sagði þá, ekki síst Hollendinga, leggja mikla áherslu á að skýr trygging verði sett fyrir því að það sem standa kann útaf af láninu árið 2024, þegar ríkisábyrgðin fellur niður, verði greitt. 

Aðspurður um stöðuna í Icesave-málinu taldi Össur að þess yrði freistað á næstu dögum að fá botn í deiluna og leggja fram hugmyndir sem þjóðirnar þrjár gætu sæst á. Til þess verði Bretar og Hollendingar að koma töluvert til móts við óskir Íslendinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka