Greiðslubyrði lána verður færð aftur til maí á síðasta ári samkvæmt aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem kynntar verða fyrir mánaðamót og stefnt er að, að taki gildi fyrsta nóvember. Afborganir lána gætu lækkað um tugi þúsunda á mánuði, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason, hefur undanfarnar vikur unnið að því að ná samkomulagi við banka, aðrar fjármálastofnanir og hagsmunasamtök um almennar aðgerðir til að lækka greiðslubyrði lána og afskrifta hluta þeirra.
Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 verður greiðslubyrði allra lána, verðtryggðra sem og gengistryggðra vegna húsnæðis- og bílakaupa færð aftur til þess sem hún var í maí 2008. En frá þeim tíma hefur gengi krónunnar lækkað um tæp sextíu prósent.
Félagsmálaráðherra segir að um verði að ræða úrræði sem standi öllum til boða. Þannig að afborganir hjá þeim sem skulda mikið í húsnæði og bílum geti lækkað um tugi þúsund á mánuði. Einnig verða kynnt sérstök úrræði fyrir þá allra verst settu, en talið er að um 20 prósent heimila í landinu séu nú í vanskilum.