Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í gærkvöldi og gagnrýndi m.a. að tafir hefðu orðið á framgangi efnahagsáætlunar Íslendinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna tvíhliða deilna um óskyld mál. Vísaði hann þar með til Icesave-deilunnar.
Hann fjallaði m.a. um fjármálakreppuna og áhrif hennar á Ísland og sagði að um þessa helgi væri ár liðið frá því fárviðri fjármálakreppunnar tók land á Íslandi. Það hafi nánast fellt allt íslenska fjármálakerfið og leitt til mesta efnahagshruns í manna minnum.
„Við vorum fyrsta landið, sem varð fórnarlamb græðgi og óhófs fjármálamanna, sem misnotuðu reglur, fylgdu vafasömum starfssiðum, földu fé sitt í skattaskjólum og komu á ábyrgðarlausu bónusakerfi sem hvatti til ófyrirleitnari áhættusækni og hegðunar en áður hefur sést," sagði Össur.
Hann sagði, að á Íslandi hefðu þessir menn skilið eftir sig sviðna jörð og ringlaða íbúa fulla af sorg og reiði, sem áttu skyndilega yfir höfði sér gjaldþrot og missi húsa sinna og atvinnu.
„Ísland er hins vegar að vinna sig út úr vandanum, vegna þess að þar hefur fólk lagt mikið á sig og einnig vegna þess að Íslendingar hafa notið stuðnings. Norræna fjölskyldan okkar yfirgaf okkur ekki. Eystrasaltslöndin veittu okkur siðferðilegan stuðning. Og Pólland, af örlæti sínu, veitti okkur óumbeðið hjálparhönd og því munum við aldrei gleyma. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bauð okkur efnahagsáætlun, sem hefur gengið eftir í stórum dráttum en ég verð að nota þetta tækifæri til að lýsa mikilli óánægju Íslendinga með, að óskyldar tvíhliða deilur hafi komið í veg fyrir að hægt sé að framfylgja áætluninni að fullu," sagði Össur.
Hann sagði einnig að umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu hefði verið vel tekið. „Ég tel mig því geta staðið hér og sagt, að fjármálaóveðrinu er að byrja að slota. Það má þakka þolægði og dugnaði íslensku þjóðarinnar og einnig því að þið, alþjóðasamfélgaið, hefur veitt okkur mikilvægan stuðning. Það er ef til vill punctum saliens. Í akþjóðavæddum heimi verðum við að fást við vandamálin saman. Við verðum að berjast saman gegn spillingunni, sem stuðlaði að þessari alþjóðlegu kreppu; til að tryggja að fjármálabarónarnir fái ekki aftur að braska með líf fólks; að þurrka út skattaskjólin sem þeir notuðu og við verðum að taka saman höndum og skapa alþjóðlegt eftirlitskerfi," sagði Össur.