25% lækkun höfuðstóls gengislánanna

Íslandsbanki
Íslandsbanki mbl.is/Golli

Íslands­banki hyggst bjóða viðskipta­vin­um sín­um upp á að breyta geng­is­tryggðum lán­um sín­um í óverðtryggð lán í krón­um miðað við 25 pró­senta lækk­un höfuðstóls. Þá mun viðskipta­vin­um bank­ans, sem eru með hefðbund­in verðtryggð lán, standa til boða að breyta lán­um sín­um í óverðtryggð lán miðað við 10 pró­senta lækk­un höfuðstóls.

Þetta staðfesti Birna Ein­ars­dótt­ir, banka­stjóri Íslands­banka, við Morg­un­blaðið í gær. Birna seg­ir bank­ann einnig ætla að bjóða upp á þær leiðir sem stjórn­völd hafi unnið að vegna skulda heim­il­anna.

Rík­is­skatt­stjóri hef­ur þegar til­kynnt Íslands­banka að lækk­un höfuðstóls­ins sé ekki skatt­skyld. Íslands­banki hafði óskað eft­ir um­sögn frá skattyf­ir­völd­um til þess að fá full­vissu fyr­ir því að lækk­un höfuðstóls­ins yrði ekki skatt­lögð. „Við von­um að hægt verði að ráðast í þess­ar aðgerðir sem allra fyrst. Sam­hliða þess­um út­færsl­um mun­um við einnig taka full­an þátt í þeim aðgerðum sem stjórn­völd munu eiga frum­kvæði að og verða ef­laust kynnt­ar bet­ur á næst­unni,“ sagði Birna í sam­tali við Morg­un­blaðið í gær.

Aðgerðir stjórn­valda, sem nú eru í und­ir­bún­ingi, miða öðru frem­ur að því að létta greiðslu­byrði lána þannig að hún verði sam­bæri­leg við greiðslu­byrði á vor­mánuðum 2008. Frá þeim tíma hef­ur gengi krón­unn­ar veikst um 60 pró­sent og af­borg­an­ir því þyngst bæði af geng­is­bundn­um og verðtryggðum lán­um. Aðgerðirn­ar eiga að ná jafnt til hús­næðis- og bíla­lána. Þær verða kynnt­ar á næstu dög­um.

Stefnt er að því að úrræðin standi fólki til boða frá 1. nóv­em­ber, eða þegar áætlað er að end­ur­reisn bank­anna verði end­an­lega lokið.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert