Framsóknarflokkurinn telur jákvætt ef rétt reynist að ríkisstjórnin ætli loksins að grípa til almennra aðgerða til að leiðrétta skuldir heimilanna.
Þetta kemur fram í ályktun sameiginlegs fundar þingflokks framsóknarmanna og landsstjórnar Framsóknarflokksins, sem var haldinn á Hólmavík 27. – 28. september.
„Framsóknarmenn og fleiri hafa í 8 mánuði barist fyrir slíkum aðgerðum og ljóst að stefnubreyting ríkisstjórnarinnar yrði mikill sigur fyrir heimilin og þá sem hafa barist fyrir almennri skuldaleiðréttingu.
Framsóknarmenn leggja áherslu á nýsköpun og uppbyggingu atvinnu og hafna fyrirfram engu í þeim efnum því framtíð heimila og fyrirtækja er í húfi. Framsóknarmenn fagna því þegar frumkvæði að atvinnuuppbyggingu kemur frá heimamönnum á hverjum stað. Hlutverk ríkisstjórnar er að skapa aðstæður og styðja heimamenn. Í því ljósi harmar fundurinn að ríkisstjórnin standi ekki heilshugar að baki Norðlendingum í þeirra atvinnusköpun.
Framsóknarflokkurinn hefur haft forystu um að lækka skatta á matvæli og nauðsynjavörur til hagsbóta fyrir íslensk heimili. Þingflokkur og landsstjórn Framsóknarflokksins leggjast eindregið gegn því að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar nái til virðisaukaskatts á matvæli. Slík hækkun mun koma verst við lágtekjufólk, atvinnulausa, aldraða og öryrkja.
Ráðaleysi ríkisstjórnarinnar hefur verið æpandi og ljóst að heimili og fyrirtæki þola ekki lengri bið eftir aðgerðum. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa eytt dýrmætum tíma í samræðustjórnmál og yfirlýsingar, nú er kominn tími til að láta verkin tala,“ segir í ályktuninni.