Íslenska heilbrigðisþjónustan sú þriðja besta

Er það einkum endurgreiðslur á tannlæknakostnaði sem mætti bæta, samkvæmt …
Er það einkum endurgreiðslur á tannlæknakostnaði sem mætti bæta, samkvæmt könnuninni Brynjar Gauti

Ísland hafnaði í 3ja sæti í samanburði gæðaviðmiða í heilbrigðisþjónustu í 33 ríkjum í Evrópu með 811 stig af 1000 mögulegum. Í fyrsta sæti varð Holland (875 stig) og í öðru sæti varð Danmörk með 819 stig. Þetta kemur fram á vef landlæknisembættisins.

Forsvarsmenn fyrirtækisins HCP (Health Consumer Powerhouse), sem sér um söfnun, skráningu og mat gæðaviðmiðanna, leituðu til Landlæknisembættisins og buðu Íslandi þátttöku og er þetta í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í þessum samanburði, en þess má geta að Ísland tekur einnig þátt í norrænni samvinnu um gæðavísa svo og sambærilegri vinnu hjá OECD.

Auk gagna í eigin gagnagrunnum hefur landlæknisembættið aflað gagna víða, m.a. á Landspítalanum og í krabbameinsskrá. Fram kemur að Ísland kemur mjög vel út í mörgum atriðum; svo sem þáttum sem snúa að réttindum sjúklinga og upplýsingum til þeirra, bið eftir krabbameinsmeðferð, ungbarnadauða, dánartíðni innan 30 daga eftir hjartaáfall og lifun 5 ár eftir krabbamein. Þá stendur íslenska heilbrigðisþjónustan sig einnig mjög vel hvað varðar bólusetningar barna, bið eftir segulómun og fleira.

Aukin þátttaka í brjóstamyndatöku myndi skila árangri

„Helstu umbótatækifæri, sem þessi einkunnagjöf leiðir í ljós, snúa m.a. að greiðsluþátttöku ríkisins varðandi tannlækningar. Einnig má nefna að aukin þátttaka í brjóstamyndatöku myndi skila enn betri árangri. Rafræn milliliðalaus samskipti milli heilbrigðisstarfsfólks og almennings svo sem tímapantanir og niðurstöður úr rannsóknum eru ekki tiltæk hérlendis í dag nema að litlu leyti, en þekkjast víða í Evrópu og þykja gott dæmi um aðgengilega heilbrigðisþjónustu. Þetta eru dæmi um umbótaverkefni sem vinna má að á komandi árum," að því er segir á vef landlæknisembættisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert