Lét þrettán ára son sinn keyra

Lögreglumenn á Selfossi stöðvuðu akstur bifreiðar í gær í hefðbundnu eftirliti. Í ljós kom að ökumaður var 13 ára. Faðir drengsins var með í bifreiðinni en hann hafði leyft drengnum að aka. Í ljós kom að tryggingar bifreiðarinnar voru ekki í lagi. Faðirinn var kærður fyrir að fela drengnum akstur og mun fá sekt fyrir vanrækslu á vátryggingu.

Snemma á föstudagsmorgun barst lögreglunni á Selfossi tilkynning um tvo menn sem væru að brjótast inn í skúr við Írafossvirkjun. Lögreglumenn fóru á staðinn og handtóku þar einn mann. Síðar fannst hinn þar skammt frá.

Í grenndinni fannst jeppabifreið sem var stolið í Garðabæ fyrr í vikunni. Mennirnir voru færðir í fangaklefa en ekki reyndist unnt að yfirheyra þá fyrr en síðar um daginn vegna þess að þeir voru undir áhrifum fíkniefna.

Við nánari rannsókn kom í ljós að þeir höfðu um nóttina brotist inn í grunnskólann á Eyrarbakka. Báðir eru mennirnir með langan brotaferil og var annar þeirra úrskurðaður í síbrotagæslu en nokkur mál sem hann á aðild að eru í rannsókn hjá lögreglu.

Í bifreiðinni sem mennirnir voru á fannst hljóðblöndunartæki sem stolið var í innbroti á skemmtistaðnum Útlaginn fyrir viku síðan. Mennirnir neituðu að hafa brotist inn þar heldur hafi þeir fengið bílinn lánaðan án þess að skýra það út nánar.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að grunur er um að kunningjar mannanna tveggja eigi þátt í innbrotinu í Útlagann og hugsanlega í sumarbústað í Heiðarbyggð í Hrunamannahreppi aðfaranótt þriðjudags. Þaðan var stolið stórum flatskjá og hljómtækjum. Í þeim sumarbústað var þjófavarnarkerfi sem fór í gang. Lögreglumenn fór þegar á staðinn en þjófarnir fundust ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert