Brotist var inn í gróðurhús í Hveragerði rétt eftir miðnætti. Öryggisvörður, sem var við eftirlit, stóð þjófinn að verki og hafði samband við lögregluna. Innbrotsþjófurinn náði hins vegar að komast undan eftir að hafa ógnað verðinum með exi.
Að sögn lögreglunnar á Selfossi hefur þjófurinn, sem flúði tómhentur, ekki náðst.
Lögreglan segir að öryggisvörðurinn hafi verið við venjubundið eftirlit þegar hann varð var við þjófinn. Þjófurinn, sem var dökkklæddur, brást við með því að segjast ætla að fara. Vörðurinn bað hann hins vegar um að hafa sig hægan og bíða eftir lögreglunni. Þjófurinn brást þá hinn versti við, tók upp exi og hljóp í áttina að verðinum, sem tók til fótanna. Þjófurinn elti hann í stutta stund og lagði síðan sjálfur á flótta. Hann var á bak og burt þegar lögregluna bar að garði skömmu seinna.
Lögreglan segir að þjófurinn hafi aðeins ógnað manninum en ekki reynt að slá til hans. Hún segir jafnframt að rúða hafi verið brotin í gróðurhúsinu, en að öðru leyti hafi ekki verið unnar neinar skemmdir í því.