Íslendingar að þyngjast

mbl.is/ÞÖK

Íslendingar eru að þyngjast. Það er ein niðurstaðna nýrrar rannsóknar sem Lýðheilsustöð hefur kynnt, en holdafar Íslendinga á árunum 1990-2007 var borið saman. Skýringarnar eru, að mati sérfræðinga, flókið samspil kyrrsetu, hreyfingaleysis, ofáts, óhollustu, óreglulegra matmálstíma og vaxandi áfengisneyslu. 

Gögnin í rannsókninni byggjast á upplýsingum um hæð og þyngd úr sex könnunum sem lagðar voru fyrir fullorðna á landinu öllu á tímabilinu. Þátttakendur voru á aldrinum 18 til 79 ára og voru þeir valdir með tilviljunarkenndu úrtaki úr þjóðskrá. Niðurstöðurnar sýna umtalsverða breytingu á líkamsþyngdarstuðli Íslendinga, sérstaklega á meðal karla.

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, sagði á kynningarfundinum að afar brýnt væri að setja offituvandann á dagskrá og hvetja einstaklinga, skóla, vinnustaði, og heilbrigðisstarfsmenn til að gefa því gaum hvert stefndi. Hann hvatti til almennrar umræðu um hollustu og aukna hreyfingu og greindi frá því að á næsta ári hygðist hann halda eins konar heilbrigðisþing þar sem lýðheilsa og forvarnir yrðu settar á dagskrá, offita, reykingar og forvarnir sem einstaklingar og samfélag geta beitt sér fyrir til gæslu heilsunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert