Gísli Gunnar Jónsson, félagi í Bílaklúbbi Akureyrar, ætlar um helgina að reyna að fleyta sér yfir 200 metra langt og 80 metra djúpt vatn í Þýskalandi á jeppa sínum.
„Þetta er sent út í beinni og það má ekkert klikka," segir Gísli Gunnar á heimasíðu Bílaklúbbs Akureyrar í dag. Þátturinn heitir Wetten Dass og er á þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF.
Rétt áður en Gísli leggur í svaðalförina munu nokkrir frægir gestir í þættinum veðja um það hvort honum takist ætlunarverkið eður ei. „Gísli býst við því að bruna örugglega yfir vatnið á jeppanum, sem áður hét Kókómjólkin, þó svo að vegalengdin sé sú lengsta sem hann hafi farið til þessa,.“ segir á heimasíðu Bílaklúbbsins. „Nema það verði skyndileg bilun, þá sekkur hann bara. En það er settur neyðarkútur á hann þannig að hann sökkvi ekki niður og dragi mann til kölska," er haft eftir Gísla.
Eftir áhættuatriðið verður bílinn dreginn inn á sjónvarpspall þar sem Gísli verður tekinn tali. Á heimasíðu Bílaklúbbsins segir að Wetten Dass hafi verið á dagskrá ZDF í áratugi og áhorfið muni vera það næstmesta í Evrópu á eftir Eurovision-keppninni, eða sem nemur yfir þrjátíu milljónum áhorfenda. „Ég hef aldrei prófað neitt í líkingu við þetta. Þetta er náttúrulega risabatterí," segir Gísli, sem er margfaldur Íslandsmeistari í torfæruakstri og fyrrverandi heimsmeistari.
Gísli kom fyrir nokkrum árum fram í þættinum Top Gear þar sem hann keyrði einmitt yfir vatn. „Það var heilmikil umfjöllun, þeir sáu þetta og höfðu samband við mig," segir hann um forsvarsmenn Wetten Dass.