Yfirlæknir Vogs, Þórarinn Tyrfingsson, hefur sent ákall til félaga og velunnara SÁÁ þar sem fram kemur að rekstur sjúkrahússins Vogs sé í hættu. Í kjölfar fjármálahrunsins í fyrra tapaði SÁÁ stærstum hluta af styrkjum sínum frá fyrirtækjum auk þess sem greiðslur ríkisins til Vogs voru lækkaðar.
„Við þessar aðstæður gripu samtökin til umsvifamikils sparnaðar með það að markmiði að samdrátturinn bitnaði sem allra minnst á skjólstæðingum SÁÁ. Eftir sem áður tókst að draga kostnaðinn saman um rúmlega 100 milljónum króna. Þetta var gert í trausti þess að um tímabundið ástand væri að ræða.
Að hluta til lá sparnaðurinn í frestun á óumflýjanlegum kostnaði á borð við viðhald húsnæðis, menntun starfsfólks og endurnýjun tækjakosts. Ef tekjur samtakanna og/eða framlög ríkisvaldsins aukast ekki fljótlega munu samtökin af þessum ástæðum þurfa að skera niður þannig að það bitni á þjónustu við sjúklinga.
Nýlega kynnti heilbrigðisráðuneytið SÁÁ hins vegar fyrirætlanir um enn frekari niðurskurð á samningsbundnum greiðslum til sjúkrahússins á Vogi. Þessar ráðagerðir eru svo róttækar að þær þýða í raun að bráðameðferð alkahólista, eins og við höfum þekkt hana undanfarna tvo áratugi, leggst af. Það er engin leið að uppfylla kröfur ráðuneytisins um sparnað og reka spítala á þeim fjármunum sem eftir eru," að því er segir í bréfi Þórarins sem er að finna á vef SÁÁ.