Jeff Taylor, stofnandi Monster.com, kemur í annað sinn á stuttum tíma til Íslands og verður með hugarflugsfund mánudaginn 5. október kl. 16-18. Hann vill hjálpa íslenskum frumkvöðlum að breyta hugmyndum í tækifæri, fyrirtæki og blómleg viðskipti.
Í tilkynningu kemur fram að Taylor hafi stýrt samskonar fundi í Harvard Business School fyrir nokkrum vikum með stofnanda Facebook, Chris Hughes og Paul English, stofnanda kayak.com ferðavefsíðunnar.
Fundurinn fer þannig fram að valdir íslenskir hugmyndasmiðir sem taka þátt í Start09 hugmyndasamkeppnni fá nokkrar mínútur hver til að kynna sína hugmynd. Jeff Taylor, Guðmundur Oddur Magnússon og Guðjón Már Guðjónsson munu svo þróa hugmyndirnar áfram á staðnum með þátttöku fundargesta. Að því loknu verða umræður um hugmyndirnar, framkvæmd viðskiptahugmynda almennt og skipst á þekkingu um þetta spennandi viðfangsefni. Jeff og félagar gefa allir vinnu sína.
Frestur til að skrá hugmynd í hugmyndasamkeppnina rennur út á morgun, miðvikudaginn 30. september. Hægt er að senda inn hugmynd á www.n1.is/start, en þar er einnig tekið á móti skráningum á fundinn í Iðnó á meðan húsrúm leyfir.