Framkvæmdir við 1. áfanga gagnavers Verne Global á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli eru komnar á fullt skrið. Alls starfa þar nú hátt í 100 manns á vegum Íslenskra aðalverktaka og undirverktaka þeirra.
Meðal þess sem eftir er að ganga frá er fjárfestingarsamningur við stjórnvöld en ágreiningur um skattaleg atriði hefur tafið afgreiðslu málsins. Orkuöflun var tryggð fyrir 1. áfanga og ekki háð raforku um Suðvesturlínu, en úrskurður umhverfisráðherra í dag um Suðvesturlínuna gæti mögulega haft áhrif á áform Verne Global með 2. áfanga, sem á þessu stigi er óákveðið hvenær ráðist verður í.
Orkuþörf fyrir 1. áfanga er um 20MW en áform eigenda Verne Global ganga út að byggja gagnaverið upp í fjórum áföngum. Áhersla verður lögð á að reisa fyrstu tvo áfangana á næstu árum, að því er fram kom á blaðamannafundi með forsvarsmönnum Verne Global á varnarsvæðinu í dag. Ef allt gengur eftir gæti fyrsti áfangi verið kominn í gagnið um mitt næsta ár.
Gagnaverið í fjórum áföngum þarf allt að 150MW orku. Hver áfangi er plássfrekur en fyrstu tveir þurfa hvor um sig um 48 þúsund fermetra húsnæði. Búist er við að hjá Verne Global muni starfa 25-30 manns og síðan enn fleiri hjá þeim fyrirtækjum sem munu leigja aðstöðu undir gagnaver.
Embættismenn á vegum fjármálaráðuneytisins hafa að undanförnu átt í viðræðum við forráðamenn Verne Global og þess fyrirtækis sem vill hýsa tölvugögn sín hér á landi. Ágreiningur hefur verið um skattaleg atriði, m.a. varanlega starfsstöð eða heimilisfesti fyrirtækjanna sem semja við Verne Global um hýsingu í gagnaverinu, samkvæmt upplýsingum blaðsins. Vilja stjórnvöld m.a. að viðskiptavinirnir stofni lögheimili hér á landi og greiði hér skatta og skyldur, á móti einhvers konar ívilnunum fyrir að fjárfesta hér á landi. Fjárfestingarsamningur af þessu tagi er sem fyrr háður samþykkir Alþingis og Eftirlitsstofnunar EFTA.
Jeff Monroe, forstjóri Verne Global, sagðist á fundi með blaðamönnum í dag vona að vinnu við fjárfestingarsamning lyki á næstu dögum. Fyrirtækið hefði átt gott samstarf við íslensk stjórnvöld, orkufyrirtæki og heimamenn á Suðurnesjum. Auk Reykjanesbæjar nefndi hann Landsvirkjun, Hitaveitu Suðurnesja, Landsnet og Farica. Monroe upplýsti ekki um nákvæmar upphæðir við fjárfestinguna en hún hlypi á hundruðum milljóna dollara. Lætur nærri að fjárfestingin sé í kringum 300-400 milljónir dollara, eða allt að 50 milljarðar króna.
Fleiri fjárfestar að koma inn
Verne Global er í eigu nokkurra erlendra og innlendra fjárfesta en meðal þeirra stærstu eru bandaríski fjárfestingasjóðurinn General Catalyst og Novotor, félag Björgólfs Thors Björgólfssonar. Fram á fundinum í dag að von væri að fleiri fjárfestum inn í fyrirtækið, og að fjármögnun fyrir fyrsta áfangann væri í höfn.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, var viðstaddur blaðamannafundinn. Hann sagði gagnaver Verne Global ekki aðeins hafa mikil áhrif á nærsamfélagið á Suðurnesjum heldur þjóðarbúið allt. „Hér er komið tækifæri til að nýta í kreppunni, mikilvægt verkefni sem komið er á fulla ferð og styðst við mikla tækniþekkingu og græna endurnýjanlega orku," sagði Árni m.a.