Borgað af lánum eftir tekjum

Vonast er til þess að hægt verði að útskýra aðgerðir stjórnvalda við skuldavanda heimilanna í smáatriðum í þessari viku. Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, segir að hnýta þurfi lausa enda í samstarfi við bankana, en það ætti að klárast í dag eða á morgun.

Skuldarar í landinu sem stríða nú við þungar afborganir eigi að finna fyrir áhrifum aðgerðanna frá og með 1. nóvember en einhver hluti þeirra komist ekki í gagnið fyrr en 1. desember í síðasta lagi.

Árni Páll flutti erindi á hádegisfundi Félags viðskipta- og hagfræðinga á Grandhótel í dag, ásamt Tryggva Þór Herbertssyni alþingismanni, Þórólfi Matthíassyni hagfræðiprófessor og Gísla Tryggvasyni, talsmanni neytenda.
Árni Páll segir að besta leiðin til að hjálpa fjölskyldum landsins í gegnum erfiðasta tímabilið, sé að laga greiðslubyrðina að launaþróun, og halda þannig ákveðnu samhengi á milli verðmætasköpunar og útgjalda heimilanna.

Hins vegar eigi ekki að afnema samningsfrelsi í viðskiptum. Aðgerðir stjórnvalda myndi eins konar gólf af úrræðum sem allir eigi rétt á, en einstakar lánastofnanir geti þar að auki boðið viðskiptavinum sínum nýjar lausnir, svo sem skuldbreytingar eða niðurfellingar á lánum.

Tryggvi Þór sagði á fundinum líklegt að allir þrír stóru viðskiptabankarnir verði von bráðar farnir að bjóða viðskiptavinum sínum niðurfellingu skulda gegn breyttum skilmálum, líkt og Íslandsbanki hyggst fara af stað með á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert