Íslendingar geta ekki beðið mikið lengur eftir endurskoðun lánsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem greiða mun fyrir frekari lánveitingu, að því er haft er eftir Jóhönnu Sigurðardóttur á fréttavef Bloomberg. Hún segir endurskipulagningu bankanna og lækkun stýrivaxta í uppnámi vegna tafarinnar.
Þolinmæði Íslendinga sé því á þrotum.
Bloomberg er mikið lesinn viðskiptafréttavefur en þar segir í viðtali Ómars R. Valdimarssonar við forsætisráðherra að frekari lánveiting frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum strandi á afgreiðslu Icesave-deilunnar við Breta og Hollendinga.
„Við vonumst enn til að lánsáætlunin verði endurskoðuð í október. Það er hins vegar ljóst að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vill sjá lausn í Icesave-málinu, áður en kemur að endurskoðuninni fyrir Ísland,“ segir Jóhanna.
Hún bætir því við að lausn Icesave-málsins samkvæmt skilyrðum Alþingis hafi reynst erfiðari og tímafrekari en búist var við. Hún væntir formlegs svars frá Hollendingum og Bretum við nýju skilyrðunum innan skamms svo hægt sé að þoka málinu áfram.
Vilja standa við skuldbindingar
Jóhanna minnir Hollendinga og Breta á að Íslendingar vilji standa við skuldbindingar sínar en að á sama tíma geti hún ekki fallist á niðurstöðu sem kallar mikla erfiðleika yfir íslensku þjóðina.
Það þjóni engum hagsmunum ef Íslendingar taka á sig meiri byrðar en þeir geta axlað.
Forsætisráðherra bendir svo á að Seðlabankinn endurskoði næst stýrivexti hinn 5. nóvember næstkomandi. Þá sé áríðandi að vextir verði lækkaðir, enda ljóst að erfitt verði að halda stöðugleika á vinnumarkaði undir jafn háu vaxtastigi.