Íslensk stjórnvöld eiga nú í viðræðum við brasilísk yfirvöld um samning um flutning dæmdra manna. Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra segir þetta snúa að íslenskum föngum, en þrír Íslendingar afplána nú dóma í Brasilíu. Málið er í skoðun og engin formleg ákvörðun hefur verið tekin í málinu.
„Við erum í viðræðum við brasilísk yfirvöld,“ segir Ragna í samtali við mbl.is. Hún tekur fram að ekki sé vitað um aðstæður og aðbúnað Íslendinganna í Brasilíu. „Við vitum þó að aðstaða í brasilískum fangelsum er almennt slæm,“ segir ráðherra.
Hún bendir á að hingað til hafi sú stefna verið við lýði að íslenskum föngum hafi ekki verið neitað um afplánun á Íslandi. Nú þurfi að meta hvort það eigi að halda í þessa stefnu. Ragna bendir á tvennt í þessu samhengi.
Í fyrsta lagi séu engin laus fangapláss hér á landi.
Í öðru lagi verði að skoða hvort það sé æskilegt að menn sem séu dæmdir fyrir alvarleg brot í öðru landi séu sendir til Íslands í afplánun.
„Á hinn bóginn getur það verið þungbært fyrir íslensk yfirvöld og fjölskyldur þessara manna að vita af þeim í mjög bágu ástandi annarsstaðar,“ segir Ragna. Nú sé unnið að því að fá betri upplýsingar um íslensku fangana og aðstæður þeirra í Brasilíu.
Stefnubreyting í skoðun
„Spurningin er hvort að það verði stefnubreyting í þá átt að aðstæður hvers og eins verði skoðaðar í það skiptið. Því það er þannig að menn fara til útlanda og brjóta af sér þar. Og þá er það spurningin: „Er það íslenska ríkisins að taka við þeim til afplánunar,“ segir Ragna og bendir á að þetta tengist umræðunni um útlendinga sem eru handteknir hér á landi og dæmdir fyrir íslenskum dómstólum. Margir spyrji hvers vegna ekki sé hægt að senda þá aftur til síns heimalands.
„Ef aðstæður þessara manna krefjast þess í rauninni að þeir verði fluttir, þá munu íslensk stjórnvöld ekki standa gegn því,“ segir ráðherra og bendir á að þetta sé flókið ferli. Brasilísk yfirvöld yrðu t.d. að samþykkja að fangarnir yrðu teknir inn í íslenska afplánunarferlið, og íslensk yfirvöld yrðu að gera slíkt hið sama ef dæminu væri snúið við.
Til stóð að taka málið upp á ríkisstjórnarfundi í morgun, en málinu var frestað.