Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vonast eftir lausn í Icesave-deilunni fyrir fund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Istanbúl um næstu helgi en þá fær hann fyrst tækifæri til að hitta fjármálaráðherra viðsemjendanna, Breta og Hollendinga.
Steingrímur tjáir sig um málið í viðtali við Reuters-fréttastofuna en þar er haft eftir honum að enn séu nokkur óleyst mál í vegi samkomulags í deilunni.
„Þeir vilja lagalega skuldbindandi tryggingar fyrir því að við munum endurgreiða féð,“ segir Steingrímur um afstöðu Breta og Hollendinga á þessu stigi málsins.
Blaðamenn Reuters túlka stöðuna svo að 320.000 manna eldfjallaeyja á stærð við England eigi fáa kosti aðra í málinu en verða við kröfunum, enda sé aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skilyrt við lausn í málinu.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra er einnig tekinn tali.
„Þetta er ekki eitthvað sem við getum haft hangandi yfir Íslandi,“ segir Gylfi, sem vonast eftir lausn á næstum tveimur dögum.
„Kötturinn er ekki enn kominn í pokann,“ segir Gylfi og bregður fyrir sig myndlíkingu.
Lán frá Pólverjum nánast í höfn
Steingrímur víkur að vinnuálagi í viðtalinu og kveðst hafa unnið dag og nótt að því að sannfæra íslensku þjóðina í málinu og tryggja framlengingu erlendra lána. Eina fríið sem hann hafi leyft sér hafi verið að komast í smölun með fjölskyldu og vinum.
Steingrímur býst við að undirrita samning við Pólverja í næstu viku um lán að upphæð 200 milljón Bandaríkjadala en hann væntir þess jafnframt að 500 milljón dala lán frá Norðurlöndunum verði afgreitt um miðjan október.
Hann talar enga tæpitungu um lán gömlu einkabankanna þriggja til handa íslenskum viðskiptavinum sínum í erlendri mynt. Þau hafi verið „einstaklega heimskuleg“.