Lögreglubíll og fólksbíll eru óökufærir eftir árekstur sem varð á Skagaströnd í morgun. Bílarnir mættust við tvískipta hraðahindrun, ökumaður fólksbílsins ætlaði að komast hjá því að aka yfir hindranirnar og beygði yfir á vinstri vegarhelming, á milli þeirra, en ók beint framan á lögreglubílinn sem var því sem næst kyrrstæður.
Frá þessu er greint á vefnum skagastrond.is og haft eftir Vilhjálmi Stefánssyni, lögreglumanni á Blönduósi, sem ók lögreglubílnum: „Það er alveg óskiljanlegt að búa til hraðahindrun sem gefur kost á því að ökumenn geti komist hjá þeim með því að aka yfir á rangan vegarhelming.“
Lögreglumaðurinn spyr: „Hvers vegna að hafa hraðahindrun ef ekki þarf að aka á hana? Meira að segja bílar sem komu þarna að eftir áreksturinn sveigðu á milli hraðahindrananna fyrir framan augun á okkur,“ segir Vilhjálmur og bætir því við að lögreglan ætli að spyrjast fyrir um tilganginn með þessu hjá sveitarstjóra Skagastrandar.
Skemmdir á lögreglubílnum voru ekki miklar en nægar til að hann var óökufær, líklega er vatnskassinn ónýtur, skv. frétt vefjarins.