Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að erlendur karlmaður, sem brotið hefur ítrekað gegn endurkomubanni til landsins, sæti gæsluvarðhaldi til 9. október.
Maðurinn, sem er Lithái, var stöðvaður af landamæralögreglu við komu með flugi frá Kaupmannahöfn sl. föstudagskvöld. Hann var árið 2005 dæmdur í 2½ árs fangelsi í svonefndu líkfundarmáli. Þegar honum var sleppt úr haldi var honum jafnframt vísað úr landi og úrskurðaður í endurkomubann til landsins næstu 10 ár.
Hann kom síðan til landsins á ný í september 2007 en var handtekinn í nóvember og dæmdur í 16 mánaða fangelsi fyrir að rjúfa endurkomubannið og fyrir fíkniefnabrot.
Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, að barn mannsins og barnsmóðir séu búsett hérlendis. Hann hafi skýrt komu sína til landsins með því að hann hafi langað til að dvelja hjá fjölskyldu sinni.