Tekið tillit til vilja barnanna

Hæstiréttur hefur dæmt að kona þurfi ekki að senda tvö börn sín til Noregs þar sem faðir barnanna býr en Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður komist að annarri niðurstöðu og úrskurðað að börnin skyldu send til Noregs. 

Konan og maðurinn bjuggu í Noregi en skildu 2003. Konan ákvað að flytja til Íslands 2006. Þau fara með sameiginlega forsjá barnanna, sem nú eru 9 og 12 ára, en gerðu samkomulag um umgengnina, fyrst árið 2006 og síðan árið 2008 um að börnin skyldu vera hjá móðurinni á Íslandi þar til skólaárinu lyki í vor en flytja eftir það til Noregs og ljúka skólagöngu sinni þar.

Konan sendi hins vegar börnin ekki til Noregs í sumar og krafðist maðurinn þess þá, að hann fengi þau afhent með beinni aðfarargerð. Á þetta féllst héraðsdómur.

Eftir að dómurinn kvað upp úrskurð sinn var dómkvaddur matsmaður til þess að meta vilja barnanna og kom fram að þau vildu bæði vera áfram hjá móður sinni á Íslandi.

Í dómi Hæstaréttar segir, að ástæðurnar fyrir afstöðu barnanna séu þess háttar að enginn vafi leiki á að þær gætu haft áhrif á daglega líðan þeirra. Þá leiki heldur ekki  vafi á því að börnin hefðu öðlast nægilegan þroska til að rétt sé að taka tillit til skoðana þeirra. Hafnaði Hæstiréttur því kröfu föðurins. 

Hæstiréttur segir að samkvæmt lögum um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. sé gert ráð fyrir að vilji barns skipti máli þegar tekin sé afstaða til beiðni um afhendingu þess. Því hefði átt að kanna afstöðu barnanna áður en héraðsdómur tók ákvörðun í málinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert