Þarf niðurstöðu fyrir helgi

Oddvitar stjórnarflokkanna, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Oddvitar stjórnarflokkanna, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að botn verði að fást í Icesave-málið í þessari viku. „Lengur getum við ekki beðið," segir hún. Nauðsynlegt sé að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir treysti sér til þess að fara með málið fyrir Alþingi í þeim búningi sem þau séu sátt við með fyrirvara um samþykki þingsins.

Fari svo leggi hún áherslu á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fari þegar í að endurskoða áætlunina og Bretar, Hollendingar og Norðurlöndin standi ekki í vegi fyrir því, þó málið hafi ekki fengið afgreiðslu í þinginu. Myndi stjórnarflokkarnir ekki meirihluta fyrir málinu þurfi að skoða breytta stöðu.

Icesave-málið var á dagskrá á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Eftir fundinn sagði Jóhanna ljóst að mikilvægt væri að fá niðurstöðu í Icesave-málið og endurskoðun lánsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Málin hefðu tekið tekið allt of langan tíma og tíminn væri á þrotum.

„Það er nauðsynlegt að fá niðurstöðu í þessi mál, við getum ekki beðið lengur," sagði hún og bætti við að verið væri að ræða um heildarendurskoðun á efnahagsáætlun Íslands. Þörf væri á að slaka á gjaldeyrishöftunum og lækka stýrivexti. Fengist ekki niðurstaða í þessi mál gæti lánshæfismat verið í húfi. „Þolinmæðin er á þrotum þegar allt þetta er undir."

Óeðlileg tenging

Að sögn Jóhönnu er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn meðvitaður um stöðu mála hér. Hún segir að sjóðurinn viti að ríkisstjórnin hafi vonast til þess að ganga frá málinu ekki síðar en í september og það hafi enn dregist. „Ég er auðvitað mjög óánægð með hvað er verið að tengja Icesavemálið og endurskoðunina hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum saman. Mér finnst það afar óeðlilegt."

Jóhanna segir að enn standi tvö til þrjú atriði út af borðinu í sambandi við athugasemdir Breta og Hollendinga við fyrirvarana í Icesave-samningnum. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir þurfi í þessari viku að ná niðurstöðu um það hvort meirihluti sé fyrir málinu með þessum athugasemdum. Verði gerð breyting á fyrri samþykkt Alþingis verði að fara með málið inn á Alþingi. Ekki sé hægt að fara með málið inn í þing nema vera örugg með meirihluta því ekki sé hægt að treysta á stjórnarandstöðuna. „Við förum ekki með það inn á þing nema við séum sátt við málið," segir Jóhanna og bætir við að þjóðin verði að standast skuldaþolið. „Ég mun aldrei samþykkja þetta mál nema ég sé sátt við þá niðurstöðu og treysti mér til þess að fylgja henni fram fyrir íslenska þjóð með minni ríkisstjórn."

Forsætisráðherra segir að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafi talað við starfsbræður sína í Bretlandi og Hollandi um málið og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hitti fjármálaráðherra Bretlands og Hollands í Istanbúl síðar í vikunni. Hún hafi ekki enn hitt forsætisráðherra landanna enda hafi þeir sem um málið hafi fjallað ekki talið það tímabært.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert