Reglulega berast fréttir af innbrotum í gróðurhús og í langflestum tilvikum eru það gróðurhúsalampar sem þjófarnir ásælast. Garðyrkjubændur eru orðnir langþreyttir á ástandinu og hefur Samband garðyrkjubænda ákveðið að efna til fundar, m.a. með lögreglunni, um vandann.
„Þetta er mjög pirrandi ástand og þetta er andlegt álag, því þetta er svipað eins og að brjótast inn til fólks,“ segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda.
Hann bendir á að flest innbrotin eigi sér stað yfir haust- og vetrarmánuðina og bætir við að mörg hundruð lömpum hafi verið stolið á undanförnum árum.
Nýverið hafi verið brotist inn í sama gróðurhúsið með viku millibili og hátt í 90 lömpum stolið. Verðmætið nemi tæpum þremur milljónum kr. „Þannig að þetta er verulegt tap sem fylgir þessu,“ segir Bjarni. Þá segir hann að þjófarnir séu orðnir svo vandlátir að þeir stela einvörðungu nýjustu lömpunum. Misjafnlega gangi að fá lampana til baka.
Innbrotin eru fyrst og fremst bundin við uppsveitir Suðurlands, Hveragerði, Borgarfjörð og Mosfellsbæ að sögn Bjarna. Þar séu þéttustu gróðurhúsabyggðirnar.
„Eitt af því sem við erum að fara gera er að reyna að setja upp einhverskonar kerfi þar sem verður hægt að draga úr eða koma í veg fyrir þessa óáran,“ segir Bjarni.
Fundurinn fer fram á Hótel Selfossi á morgun og hefst kl. 15. Þar verður reynt að svara ýmsum spurningunum, t.d. „Hvað verður um lampana þegar þjófarnir nást?“, „Er hægt að fá þá til baka?“, „Er til lausn sem hindrar innbrot af þessu tagi?“ og „Hvað getur nærsamfélagið gert til að koma í veg fyrir innbrot?“