Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Mosfellsbæ verður mál fjögurra Pólverja, sem eru ákærðir fyrir fimm innbrot, þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag. Játningar liggja fyrir hjá öllum mönnunum og þá hefur lögreglan lagt hald á mikið af þýfinu.
Nokkur mál hafa verið til rannsóknar þar sem meint þjófagengi hafa komið við sögu, og hafa nokkrir einstaklingar verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Ekki hefur tekist að tengja ofangreinda fjórmenninga við aðra hópa, sem aðrar lögreglustöðvar hefur verið að rannsaka.
Mennirnir ganga lausir en þeir voru úrskurðaðir í farbann til 9. október nk. Óskað var eftir flýtimeðferð í dómi þar sem rannsókn málsins gekk vel.