„Kynheilbrigðismál eru eitt helsta heilbrigðismál ungs fólks í dag. Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna telur það verulegt áhyggjuefni að sala á getnaðarvörnum hafi dregist saman á árinu og verð á þeim nærri tvöfaldast. Tekur stjórnin undir áhyggjur heilbrigðisstarfsfólks þar um," að því er segir í álytkun stjórnarinnar.
„Ungt framsóknarfólk benti í liðinni kosningabaráttu á að hækkandi verð á getnaðarvörnum gæti leitt til þess að ungt fólk leitaði í ódýrari varnir eða hætti notkun þeirra. Mikil þörf er á að bæta aðgengi að getnaðarvörnum fyrir ungt fólk og efla opna umræðu um getnaðarvarnir og ábyrgt kynlíf.
Þá ítrekar stjórnin þá skoðun sína að rétt sé að lækka virðisaukaskatt á öllum getnaðarvörnum úr 24,5% í 7%. Lægra skattþrep lækkar verð á getnaðarvörnum leiðir til aukinnar notkunar þeirra sem spornar þannig gegn ótímabærum þungunum og dregur úr líkum á kynsjúkdómum. Það mun því skila sér í sparnaði fyrir hið opinbera til lengri tíma litið."