„Þetta er bara ein birtingarmynd vandræðanna sem ríkisstjórnin er í. Jóhanna vísar úr ríkisstjórninni eina ráðherranum sem er í jarðsambandi við fólkið í landinu í Icesave-málinu. Á hinn bóginn sé ég ekki að það leysi nokkurn hlut að heilbrigðisráðherra hætti í ríkisstjórn,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um afsögn Ögmundar Jónassonar úr embætti heilbrigðisráðherra.
Bjarni segist meta það svo að Ögmundi hafi verið vísað úr stjórninni þar sem aðstæður hafi verið skapaðar þar sem honum hafi ekki verið stætt lengur.
„Það gengur fram af manni hvað forystan í ríkisstjórninni er ákveðin í því að verða við kröfum um afslátt á fyrirvörum Alþingis frá Bretum og Hollendingum. Þetta er að sýna sig núna þrátt fyrir fyrri orð forsætisráðherra um að ekki væri verið að fara fram á neinskonar afslátt,“ segir Bjarni. Hann segir ríkisstjórnina ekki hafa stjórn á Icesave-málinu frekar en öðrum og atvinnulífið í landinu sé á heljarþröm.
„Það kæmi mér verulega á óvart ef stjórnin hefði meirihluta í þinginu fyrir frekari eftirgjöf í Icesave-málinu,“ segir Bjarni. Hann segir að ekki hafi verið rætt við Sjálfstæðisflokkinn um málamiðlanir í Icesave-málinu.
Um framhald mála segir Bjarni mikilvægt að ríkisstjórnin horfist í augu við að það þjóni hagsmunum Íslendinga best að gefa ekki endalaust eftir vegna krafanna í Icesave-málinu. „Þá hljótum við að þurfa að taka til heildarendurskoðunar allt sem verið er að gera í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn því það er svo brýnt að ná að lækka vexti, finna leiðir til að afnema gjaldeyrishöftin og koma atvinnulífinu af stað,“ segir Bjarni