Greiðsluverkfallsstjórn Hagsmunasamtaka heimilanna segir að úrræði sem félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason, hefur kynnt um lausn á skuldavanda heimilanna, breyti ekki áður boðuðu verkfalli. Samtökin hafa boðað greiðsluverkfall frá og með morgundeginum til 15. október.
„Óljós úrræði til lausnar á skuldavanda heimilanna sem félagsmálaráðherra hefur kynnt skömmu fyrir boðað greiðsluverkfall breyta ekki forsendum verkfallsins. Enn er hækkað flækjustig á útreikningum lána og endurgreiðslna og lengt í hengingaról heimilanna. Biðlán verður látið hvíla eins og farg á skuldugum heimilum í áratugi og gerir húseignir óseljanlegar. Þannig er útilokað fyrir fjölskyldur að gera áætlanir fram í tímann eða bregðast við breyttum högum.
Kynning stjórnvalda á fyrirhuguðum úrræðum hefur verið mjög ótrúverðug svo ekki sé meira sagt. Fullyrðingar um að tillögurnar hafi verið unnar í samráði við Hagsmunasamtök heimilanna eru ósannar og virðast settar fram til að blekkja almenning og grafa undan greiðsluverkfallinu.
Greiðsluverkfallsstjórn Hagsmunasamtaka heimilanna krefst þess að stjórnvöld og lánastofnanir gangi til viðræðna við samtökin um kröfur þeirra.
Greiðsluverkfallsstjórn Hagsmunasamtaka heimilanna hvetur til almennrar samstöðu um þátttöku í greiðsluverkfallinu 1. til 15. október til að fylgja kröfunum eftir," að því er segir í tilkynningu.