Enginn bilbugur á stjórninni

Fréttamenn biðu utan við Stjórnarráðið í kvöld.
Fréttamenn biðu utan við Stjórnarráðið í kvöld. mbl.is/Golli

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í kvöld að enginn bilbugur væri á ríkisstjórninni þrátt fyrir að Ögmundur Jónasson hefði í dag sagt af sér embætti heilbrigðisráðherra vegna Icesave-málsins.

Ekki kom fram hver tekur við embætti heilbrigðisráðherra af Ögmundi en ríkisráðsfundur hefur verið boðaður á Bessastöðum fyrir hádegi á morgun.

Steingrímur sagði, að dagurinn hefði orðið öðru vísi en reiknað var með og flokkarnir þyrftu meðal annars að ræða sín innri mál. Þingflokkur VG hefur verið boðaður aftur á fund klukkan 22:30.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að full sátt væri í ríkisstjórninni um að fara með þessi mál áfram.  Þegar hún var spurð hvaða niðurstaða það væri í Icesave-málinu, sem verið væri að ræða um að ná fram sagði hún, að verið væri að ræða hugmyndir sem samninganefndir Íslands, Bretlands og Hollands hefðu verið að ræða. Sagði hún að í mesta lagi væru tvö atriði sem um væri að ræða, verið sé að reyna að fá botn í þau og þegar því lyki yrði niðurstaðan kynnt opinberlega.  

Steingrímur sagði, að þreifingar hefðu verið  í kjölfar viðbragða sem bárust frá Bretum og Hollendingum. Hann sagði, að nokkur erfið atriði stæðu út af en ekki væru margir hlutir, sem stæðu í vegi þess að hægt sé að kynna mögulegan efnislegan grundvöll í málinu.

Jóhanna sagði ljóst, að niðurstaðan í Icesave-málinu yrði að vera viðunandi svo flokkarnir tveir gætu lagt hana fyrir þingið. Hún yrði að vera viðunandi fyrir þjóðina og tryggt að hún þoli og geti staðið undir þeirri skuldabirði, sem á hana verður lögð.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ræða við fjölmiðla eftir …
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ræða við fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund í kvöld. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka