Ögmundur Jónasson segir í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér síðdegis að hann hafi verið þeirrar skoðunar að fara eigi hina þverpólitísku leið hvað Icesave málið varðar og að Alþingi eigi að fá það til umfjöllunar skuldbindingalaust, á því stigi sem það er nú sem á fyrri stigum.
„Í dag, 30. september 2009, gekk ég á fund forsætisráðherra og tilkynnti um afsögn mína sem ráðherra í ríkisstjórn," segir í yfirlýsingu Ögmundar.
„Ég hef verið þeirrar skoðunar að fara eigi hina þverpólitísku leið hvað Icesave málið varðar og að Alþingi eigi að fá það til umfjöllunar skuldbindingalaust, á því stigi sem það er nú sem á fyrri stigum. Innan ríkisstjórnarinnar er hins vegar eindreginn vilji til þess að afgreiða málið samhljóða þaðan áður en Alþingi fær það til umfjöllunar og í ljósi þess eindregna vilja tel ég farsælast að víkja úr ríkisstjórn.
Ég hef hins vegar alltaf litið svo á að líf ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingar annarsvegar og Icesave-málið hins vegar séu tveir aðskildir hlutir. Ég lýsi því fullum stuðningi við ríkisstjórnina og mun sitja áfram á Alþingi sem þingmaður Vinstri grænna."