„Ögmundur virðist draga upp mynd af stjórnarstarfi sem er ekki hér, hér er þingræði,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur. „Ef hluti þingmanna VG fylgir Ögmundi að máli hefur stjórnin ekki meirihluta fyrir Icesave og það hlýtur að þýða að ríkisstjórnin sé sprungin,“ segir Gunnar Helgi.
„Reyndar hefur Ögmundur ekki ennþá sagt skýrt hver afstaða hans er í Icesave málinu. En það má kannski reikna það út að hann muni ekki kjósa með Icesave ef það kemur fyrir þingið á ný á breyttum forsendum,“ segir Gunnar Helgi.
Hann segir ómögulegt að hluti einhvers stjórnarflokks styðji ekki málefni ríkisstjórnarinnar og hegði sér þannig eins og flokkur innan flokksins. „Ögmundur virðist ætlast til þess að hluti flokksins geti orðið hluti af ríkisstjórnarsamstarfi eins og sérstakur flokkur, en það er ekki hægt, þannig gerast hlutirnir ekki. Það er spurning hvort þá þyrfti ekki bara nýjan stjórnarsáttmála, til að taka á slíkum aðstæðum,“ segir Gunnar Helgi.
Gunnar Helgi segir litlar líkur á að þjóðstjórn væri betri kostur í stöðunni. Ólíklegt sé að fleiri flokkar kæmu sér saman um hluti sem tveir flokkar geri ekki nú. „Nema þá að menn geri ráð fyrir því að annarskonar andi myndaðist í þjóðstjórn og að það sem þvælist fyrir þinginu nú sé hefðbundin stjórnar- og stjórnarandstöðuhugsun.“