Ögmundur Jónasson, fráfarandi heilbrigðisráðherra, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins að það hafi verið að koma í ljós að Bretar og Hollendingar geri athugasemdir við fleiri atriði í Icesave-málinu en talið var í fyrstu.
Ögmundur sagðist ekki vilja taka að sér upplýsa hvaða athugasemdir væri um að ræða.
Ögmundur sagðist helst hefði viljað fella Icesave-samninginn í vor, hann væri sér svo á móti skapi. En hann hefði sannfærst um, þegar hann fór að skoða málið, að Icesave-samningurinn yrði ekki felldur vegna þess að hluti stjórnarandstöðunnar hefði ekki viljað fella hann. Því hefði verið farið í að smíða eins góða fyrirvara við samninginn og hægt var.
„Nákvæmlega þetta gerum við núna þegar málið kemur aftur inn á borð þingsins. Við afgreiðum það á þann hátt, sem við teljum bestan og farsælastan fyrir Ísland," sagði Ögmundur. Hann viðurkenndi þó að ágreiningur hefði verið í ríkisstjórninni um slíka aðkomu þingsins nú.
Aðspurður sagðist Ögmundur ekki vera að segja af sér embætti vegna þess að hann teldi að sá niðurskurður, sem framundan er, væri að eyðileggja íslenska heilbrigðiskerfið. „Þá myndi ég segja það," sagði hann og ítrekaði að hann talaði hreint út um hlutina.
En sá bratti niðurskurður og aðhald, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mælir fyrir sé beinlínis hættulegur. „Ég tel að við þurfum að koma Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr landi sem allra fyrst," sagði Ögmundur.
Fram kom einnig hjá Ögmundi í viðtalinu, að Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, hefði verið á fundi með evrópskum þingmönnum í Strassborg í gær. „Þar voru breskir þingmenn sem sögðu: Ef þið farið ekki að okkar kröfum í einu og öllu þá munuð þið aldrei komast inn í Evrópusambandið... Undir þessu erlenda hótunarvaldi þurfum við að sitja," sagði Ögmundur.