Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og SPRON, um að vísa frá kröfum 25 alþjóðlegra banka sem kröfðust viðurkenningar á bótaskyldu vegna yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á sparisjóðnum.
Málskostnaðurinn, samtals 2 milljónir króna, fellur á stefnendur í málinu, sem aðallega eru þýskir bankar.
Að mati héraðsdóms voru kröfur bankanna ekki nægilega vel reifaðar og því var málinu vísað frá dómi. Segir meðal annars í niðurstöðu dómsins, að þótt bankarnir hafi í dómkröfu sinni tilgreint tjónsatburðinn þá skorti í stefnu að þeir sýni fram á að þeir eigi lögvarða hagsmuni í málinu.
Þá skorti á skýrleika í málatilbúnaði og lánasamningar hafi ekki verið lagðir fram í málinu en ætla megi að um grundvallarskjöl sé að ræða. Loks hafi verið lagður fram fjöldinn allur af skjölum á ensku, án íslenskrar þýðingar. Með því sé freklega brotið gegn ákvæðum laga um að þingmálið sé íslenska.