Laun sérfræðinga hafa hækkað

Meðallaun sérfræðinga hækkuðu um 3,4% frá september 2008 fram í febrúar 2009. Á sama tímabili lækkuðu meðallaun ófaglærðs starfsfólks um 4,7%, að því er fram kemur í Launagreiningu ParX.

Fram kemur í tilkynningu frá ParX, að þegar laun sérfræðinga séu skoðuð sérstaklega komi í ljós að meðallaun lögfræðinga hafi hækkað um 7,2% en laun sérfræðinga í markaðsmálum hafi lækkað um 8,1% á sama tíma. Þá hafi meðallaun fjármálastjóra hækkað um 5,6%.

Meðal ófaglærðra hefur launaþróun orðið með eftirfarandi hætti frá september 2008 fram í febrúar 2009: Meðallaun bílstjóra hækkuðu um 3%, laun starfsfólks í ræstingum lækkuðu um 0,7%, laun starfsfólks í almennum sölu- og afgreiðslustörfum hækkuðu um 3,6% og laun starfsfólks í sérhæfðum sölu- og afgreiðslustörfum lækkuðu um 3,8%.

Í heild hækkuðu meðallaun allra starfshópa í Launagreiningu ParX um 1% frá því í september 2008 fram í febrúar 2009. Til samanburðar hækkuðu laun sömu hópa um 30% á almennum vinnumarkaði á árunum 2005-2008, samkvæmt gögnum frá ParX. 

Launagreiningin, sem hefur verið gerð árlega frá 1979, byggir á upplýsingum úr launakerfum íslenskra fyrirtækja og er stuðst við gögn beint úr launakerfum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert