Líðan mannsins sem bjargað var úr brennandi húsi við Barmahlíð á Akureyri í kvöld, er eftir atvikum góð, að sögn slökkviliðsins á Akureyri. Maðurinn var lagður inn á lyfjadeild Fjórðungssjúkrahússina á Akureyri til eftirlits í nótt.
Rétt fyrir kl hálf níu í kvöld var slökkviliðið kallað út vegna mikils reyks frá húsi við Barmahlíð á Akureyri.
Þegar slökkviliðið kom á staðinn logaði eldur upp úr þaki hússins sem er gamalt timburhús. Reykkafarar fóru strax inn í húsið og fundu mann í svefnherbergi og björguðu honum út. Hann var með einhverja meðvitund en var fluttur með sjúkrabíl á Slysadeild FSA með reykeitrun, samkvæmt frétt slökkviliðsins.
Eftir að reykkafarar höfðu leitað af sér allan grun um að fleiri væru í húsinu var farið í að ráða niðurlögum eldsins sem var mestur í þaki hússins. Þurfti að rífa þakið talsvert til að komast fyrir allan eld.
Svo vel vildi til að 5 voru á vakt í kvöld auk eins manns á flugvelli. Ennfremur voru tveir menn staddir á slökkvistöð sem voru á frívakt. Því var strax hægt að senda tvær slökkvibifreiðar auk sjúkrabíls á staðinn og hefja slökkvistörf strax auk þess að flytja manninn sem bjargað var á sjúkrahús.
Húsið er mikið skemmt og þak þess ónýtt. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni.
Auk vaktarinnar voru kallaðar út tvær vaktir til viðbótar auk yfirmanna. Samtals tóku 21 slökkviliðsmenn þátt í slökkvistarfinu í kvöld.