Niðurskurður er óhjákvæmilegur

Jóhanna Sigurðardóttir hafði framsögu á opnum fundi Samfylkingarinnar í Reykjavík …
Jóhanna Sigurðardóttir hafði framsögu á opnum fundi Samfylkingarinnar í Reykjavík í kvöld. mbl.is/Golli

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á opnum fundi Samfylkingarinnar í kvöld, að Íslendingar yrðu að fara í niðurskurð á ríkisútgjöldum og hækkun á sköttum óháð því hvort haldið yrði áfram  samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Jóhanna sagði að Íslendingar gætu kvatt Alþjóðagjaldeyrissjóðinn strax á morgun en vandi ríkissjóðs myndi ekki leysast við það. Til að bæta stöðu efnahagsmála þyrfti að fá lánsfé frá AGS og nágrannaþjóðum til að byggja upp gjaldeyrisforðann. Sú aðgerð stuðlaði að því að hægt væri að afnema gjaldeyrishöft og lækka stýrivexti.

Jóhanna sagði að ríkissjóður stæði frammi fyrir því að skera þyrfti niður ríkisútgjöld um 200 milljarða. Skorið yrði niður um 100 milljarða á næsta ári. Vaxtagreiðslur ríkissjóð næmu um 100 milljörðum. Þetta væru svimandi háar upphæðir.

Jóhanna sagði eðlilegt að menn spyrðu hvernig þessar skuldir hefðu orðið til. Hún sagði að í fyrsta lagi hefði ríkissjóður verið rekinn með miklum halla í ár og á síðasta ári. Í öðru lagi þyrfti ríkissjóður að leggja 300 milljónir í fjármálafyrirtækin. Samkomulag væri að takast um að kröfuhafar tækju við Kaupþingi og Íslandsbanka og því stæðu vonir til að þessi upphæð yrði lægri. Í þriðja lagi þyrfti ríkissjóður að taka um 330 milljarða lán til að styrkja gjaldeyrisforðann. Í fjórða lagi hefði ríkissjóður þurft að taka á sig um 300 milljarða vegna tapaðra lána Seðlabankans. Í fjórða lagi hefðu skuldir hækkað vegna falls gengis krónunnar.

Jóhanna sagði að inni í þessum tölur væru ekki skuldir vegna Icesave. Þær skuldir væru á bilinu 300-750 milljarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert