„Þetta kom okkur á óvart og það er eftirsjá að Ögmundi úr stjórninni en ég tel að stjórnin standi áfram enda hefur hann (Ögmundur) lýst því yfir að hann styðji stjórnina. Ég trúi ekki öðru en að hann standi fast við þá yfirlýsingu sína því það væri gífurlegt áfall ef stjórnarmeirihlutinn stæði ekki, pólitískt áfall fyrir landið,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Björgvin segir það ekki úrslitaatriði hvort allur þingflokkur Vinstrigrænna fylki sér að baki breytingartillögu stjórnarinnar um Icesave. „Þá er bara komin upp ný staða sem menn vinna úr. Hvort sem það er frekari samningaviðræður eða annað. Stjórnin stendur því hvað sem því líður,“ segir Björgvin.
Hann segir afsögn Ögmundar ekki þurfa að veikja stöðu ríkisstjórnarinnar. „Hann lýsti yfir stuðningi við stjórnina og það kemur maður í manns stað. Það er eftirsjá að kappa eins og honum en það verður bara að fylla skörðin þó þau séu vandfyllt,“ segir Björgvin.
Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur verið boðaður klukkan 16 í dag en þingflokkur VG er þegar hafinn og stendur til klukkan 18.