Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, líkir í pistli á vefsíðu sinni deilum Ögmundar Jónassonar og Jóhönnu Sigurðardóttur við deilur Jóhönnu og Jóns Baldvins Hannibalssonar, sumarið 1994 sem hafi reynst upphafið að pólitískum endalokum Jóns Baldvins.
„Óvenjulegt er, að ráðherra segi af sér embætti vegna ágreinings um pólitísk álitaefni. Ögmundur Jónasson sagði af sér embætti heilbrigðisráðherra 30. september 2009. Hann tilkynnti Jóhönnu Sigurðardóttur þetta rétt fyrir hádegi.
Síðast gerðist sambærilegur atburður 21. júní 1994 klukkan 9.30, þegar Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnti Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, að hún segði af sér embætti félagsmálaráðherra. Jóhanna gaf þá skýringu á málinu, að hún gæti ekki sinnt ráðherrastörfum með hendur sínar reyrðar fyrir aftan bak. Vísaði hún þar til ágreinings við Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra og formann Alþýðuflokksins," segir Björn m.a. í pistli sínum.