Ekki sanngirni að við borgum, en...

Jóhanna Sigurðardóttir hafði framsögu á opnum fundi Samfylkingarinnar í Reykjavík …
Jóhanna Sigurðardóttir hafði framsögu á opnum fundi Samfylkingarinnar í Reykjavík í gærkvöldi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Er sanngirni í því að íslenska þjóðin taki á sig 300 milljarða vegna Icesave, 400 milljarða, eða 700 milljarða? Svar mitt er að það er ekki sanngirni í því að íslenska þjóðin taki á sig eina einustu krónu af þessu," sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á fundi með Samfylkingunni í gærkvöldi. 

Jóhanna var spurð á fundinum hvað hún teldi sanngjarnt að íslenska þjóðin tæki á sig stóran hlut af Icesave-skuldbindingum. Klappað var á fundinum þegar Jóhanna gaf þetta svar. Hún bætti hins vegar við:

"En við viljum vera í samfélagi þjóðanna. Við stöndum frammi fyrir því að við viljum ekki einangrast. Við stöndum frammi fyrir því að þegar þetta mál kom upp í haust þá stóðum við alein, alein meðal þjóðanna. Ekki einu sinni Norðurlandaþjóðirnar vildu standa með okkur um að okkur bæri ekki að greiða þessar skuldir. Það er hinn kaldi veruleiki.

Regluverkið sem var stuðst við var gallað og við erum fórnarlömb þess hvort sem okkur líkar betur eða verr," sagði Jóhanna.

Hún sagði að Íslendingar hefðu sett fram tillögu um að íslensk stjórnvöld hefðu heimild til að leggja ágreining um Icesave fyrir dómstóla m.a. vegna þess að vitað væri að regluverkið hefði verið gallað. Regluverkið hefði byggt á þeirri forsendu að einn banki færi á höfuðið en ekki að heilt bankakerfi yrði gjaldþrota. Þetta væri eitt af því sem stæði út af í viðræðunum við Breta og Hollendinga.

"Á þessu stendur. Þeir [Bretar og Hollendingar] segja á móti að ef við ætlum að gera kröfu um þetta þá vilja þeir að réttmæti neyðarlaganna verði tekið upp vegna þess að við höfum veitt okkar þegnum ekki bara þessa lágmarkstryggingu heldur tryggðu innistæður að fullu. Þetta er eitt af því sem við erum að reyna að glíma við, að reyna að fá einhverja sanngjarna niðurstöðu í."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka