Kristín A. Árnadóttir, sendiherra og skrifstofustjóri á upplýsingaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, verður sendiherra í Kína um áramótin, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Hún tekur við embættinu af Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra.
Kristín A. Árnadóttir er með meistarapróf í opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá Syracuse University í Bandaríkjunum. Hún hóf störf hjá Reykjavíkurborg 1994 sem aðstoðarmaður borgarstjóra, var sviðsstjóri Þróunar- og fjölskyldusviðs frá 2001- 2005 og skrifstofustjóri borgarstjóra frá þeim tíma.
Utanríkisráðuneytið réð Kristínu árið 2007 til að stýra framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hélt síðan áfram störfum fyrir ráðuneytið.