Landsmenn horfa til Alþingis

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Össur …
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson ganga úr Alþingishúsinu í Dómkirkjuna í dag.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði þegar Alþingi var sett í dag, að landsmenn horfi nú til Alþingis í þeirri von, að fulltrúar þeirra á þjóðþinginu leysi þann mikla vanda sem við blasir.

„Það er von mín að við berum gæfu til að taka með farsælum hætti á þessum verkefnum og að við getum náð sem víðtækastri samstöðu um úrlausn þeirra," sagði Ásta Ragnheiður.

Hún sagði að  í byrjun næsta árs sé þess að vænta að formlegar viðræður hefjist milli Íslands og Evrópusambandsins um umsókn Íslands um aðild að sambandinu. Þó að þær viðræður séu af hálfu Íslands á hendi ríkisstjórnarinnar þá bíði Alþingis eigi að síður ákveðin verkefni í umsóknarferlinu. Þá sé ljóst að þetta umsóknarferli muni setja sterkan svip á alþjóðasamstarf Alþingis á næstu misserum.

„Það kemur t.d. í hlut Alþingis að sinna samskiptum við Evrópuþingið, bæði við forustu þess og nefndir svo og þingflokkana á Evrópuþinginu sem eru mikilvægir valdahópar innan þingsins. Þá verður það Alþingis að sinna tengslum við þjóðþing einstakra ríkja Evrópusambandsins í þessu ferli. Afstaða Evrópuþingsins og þjóðþinganna mun ráða miklu um endanlega lyktir málsins af hálfu Evrópusambandsins. Það er síðan íslensku þjóðarinnar að taka endanlega ákvörðun um það hvort til aðildar komi," sagði Ásta Ragnheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert