Ráðherraskipti á Bessastöðum

Ríkisráðsfundir voru haldnir á Bessastöðum í dag þar sem Ögmundi Jónassyni var veitt lausn úr embætti heilbrigðisráðherra og Álfheiður Ingadóttir var sett inn í embættið. Þetta er fyrsta breytingin sem gerð er á ríkisstjórninni frá því hún tók við völdum í maí.

Ögmundur gekk á fund Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í gær og óskaði eftir lausn frá embætti. Á þingflokksfundi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs seint í gærkvöldi var samþykkt tillaga frá Steingrími J. Sigfússyni, formanni flokksins, um að Álfheiður tæki við ráðherraembættinu.

Alþingi er sett að nýju í dag eftir stutt sumarhlé. Gert er ráð fyrir að Álfheiður taki við lyklum heilbrigðisráðuneytisins síðdegis.

Álfheiður Ingadóttir var kjörin á Alþingi fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð í kosningum 2007 í Reykjavíkurkjördæmi suður og var endurkjörin í kosningum í vor fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður. Áður sat Álfheiður sem varaþingmaður Alþýðubandalagsins og VG.

Álfheiður Ingadóttir varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1971, lauk B.Sc.-próf í líffræði frá Háskóla Íslands 1975 og stundaði nám í þýsku og fjölmiðlun við Freie Universität í Vestur-Berlín 1976-1977.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert