Ríkisráðsfundur stendur nú yfir á Bessastöðum en á þeim fundi mun Ögmundur Jónasson formlega láta af embætti heilbrigðisráðherra og Álfheiður Ingadóttir taka við embætti heilbrigðisráðherra. En eins og fram hefur komið tilkynnti Ögmundur forsætisráðherra um afsögn sína í gær. Síðar í dag verður Alþingi sett.
Þingsetningarathöfnin hefst kl. 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni.
Forseti Íslands, ráðherrar og alþingismenn ganga fylktu liði til
kirkjunnar úr Alþingishúsinu kl. 13:25. Jón A. Baldvinsson,
vígslubiskup í Hólabiskupsdæmi, predikar og séra Hjálmar Jónsson,
sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt biskupi
Íslands, herra Karli Sigurbjörnssyni. Organisti Dómkirkjunnar, Marteinn
H. Friðriksson, leikur á orgel og kammerkór Dómkirkjunnar syngur við
athöfnina.
Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskupinn yfir Íslandi, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.
Forseti
Íslands setur Alþingi, 138. löggjafarþing, og að því loknu flytur
forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, ávarp. Þingsetningarfundi
verður síðan frestað til kl. 4 síðdegis.