Skorður settar við lántökum sveitarfélaga?

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna að nauðsynlegt væri að skoða hvort ekki ætti að setja skorður við lántökum sveitarfélaganna í erlendri mynt.

"Ég tel nauðsynlegt að litið verði til þess hvort ekki skuli setja reglur um lántökur sveitarfélaga í erlendri mynt. Eins og við höfum öll séð getur 45%  skuldsetning sveitarfélaga í erlendri mynt verið stórvarasöm, amk á meðan við nýtum krónuna sem gjaldmiðil. Skortur á samráði á þessu sviði er talinn til veikleika í okkar hagkerfi sem við þurfum að taka á. Veikleikinn er einkum talinn felast í því að rúmar heimildir eru hjá sveitarfélögum til lántöku og skuldsetningar, og að krafan um hallalausan rekstur er mjög veik. Það verður ekki hjá því komist að gera einhverjar breytingar hvað þetta varðar."

Jóhanna ræddi einnig um tillögur um persónukjör. Hún hét samráði við sveitarfélögin um málið, en þau hafa gert athugasemdir við frumvarp um persónukjör. Hún sagði að menn ættu ekki að vera hrædd við þessi skref. "Þau eru nauðsynlegar lýðræðisumbætur og eru án efa mikilvægt skref í að færa aukið vald inn í kjörklefann."

Jóhanna gerði einnig að umtalsefni þá gagnrýni að persónukjör gæti stuðlað að því að færri konur yrðu kosnar í sveitarstjórnir. "Við skulum hins vegar hafa í huga að núverandi fyrirkomulag kosninga tryggir ekki jafna stöðu kynjanna. Það hefur verið  á ábyrgð flokkanna sjálfra að tryggja stöðu kynjanna á framboðslistum sínum. Þeirri jafnréttiskröfu hafa sumir flokkar svarað en aðrir ekki, því miður. Mín skoðun er sú að persónukjör muni bæta stöðu kvenna á framboðslistum og reynsla annarsstaðar á Norðurlöndum styður hana."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert