Karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn fyrir að stela hangikjötslæri úr matvöruverslun í Reykjavík um miðjan dag í gær. Að sögn lögreglu stakk maðurinn inn á sig hangikjötslærinu og gekk síðan út úr versluninni án þess að greiða fyrir það en þá var för hans stöðvuð.
Um svipað leyti voru tvær unglingsstúlkur staðnar að hnupli í Kópavogi en þær freistuðu þess að stela snyrtivörum og skartgripum. Síðdegis var kona á fertugsaldri handtekin fyrir þjófnað í verslunarmiðstöð í Kópavogi en hún hafði troðfyllt innkaupakerru af ýmsum varningi og ekki greitt fyrir hann. Konunni tókst að komast með varninginn út á bifreiðaplan sem þarna er en þar var hún handtekin.
Nokkuð var um innbrot í bíla á höfuðborgarsvæðinu í gær en fimm slíkar tilkynningar bárust lögreglunni. Brotist var inn í þrjá bíla í Kópavogi og tvo í Reykjavík og úr þeim stolið ýmsum verðmætum.Þrír ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og nótt. Karlmaður á fertugsaldri var stöðvaður fyrir þessar sakir á Kjalarnesi en viðkomandi hafði áður lent í umferðaróhappi í Mosfellsbæ og stungið af frá vettvangi.
Í miðborginni handtók lögreglan karlmann á fimmtugsaldri en sá var líka ölvaður við stýrið. Þriðji ökumaðurinn var svo tekinn á Suðurlandsbraut en hann reyndist einnig vera drukkinn. Um var að ræða karlmann um þrítugt.