Stal hangikjötslæri í verslun

Karl­maður á fimm­tugs­aldri var hand­tek­inn fyr­ir að stela hangi­kjötslæri úr mat­vöru­versl­un í Reykja­vík um miðjan dag í gær. Að sögn lög­reglu stakk maður­inn  inn á sig hangi­kjötslær­inu og gekk síðan út úr versl­un­inni án þess að greiða fyr­ir það en þá var för hans stöðvuð.

Um svipað leyti voru tvær ung­lings­stúlk­ur staðnar að hnupli í Kópa­vogi en þær freistuðu þess að stela snyrti­vör­um og skart­grip­um. Síðdeg­is var kona á fer­tugs­aldri hand­tek­in fyr­ir þjófnað í versl­un­ar­miðstöð í Kópa­vogi en hún hafði troðfyllt inn­kaupa­kerru af ýms­um varn­ingi og ekki greitt fyr­ir hann. Kon­unni tókst að kom­ast með varn­ing­inn út á bif­reiðapl­an sem þarna er en þar var hún hand­tek­in.

Þrír öku­menn voru tekn­ir fyr­ir ölv­unar­akst­ur í um­dæmi lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu í gær­kvöld og nótt. Karl­maður á fer­tugs­aldri var stöðvaður fyr­ir þess­ar sak­ir á Kjal­ar­nesi en viðkom­andi hafði áður lent í um­ferðaró­happi í Mos­fells­bæ og stungið af frá vett­vangi.

Í miðborg­inni hand­tók lög­regl­an karl­mann á fimm­tugs­aldri en sá var líka ölvaður við stýrið. Þriðji ökumaður­inn var svo tek­inn á Suður­lands­braut en hann reynd­ist einnig vera drukk­inn. Um var að ræða karl­mann um þrítugt.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert