Íslenskar fálkaorður ganga enn kaupum og sölum erlendis. Magni R. Magnússon safnari rakst nýverið á riddarakrossa og stórriddarakrossa með stjörnu sem boðnir eru upp hjá þýska uppboðsfyrirtækinu Künker í Osnabruck.
Uppboðið fer fram á morgun, 2. október, og byrjunarboð eru frá 250 evrum upp í 1500 evrur, eða allt að 270 þúsund krónum. Ofan á það getur bæst gjald seljandans.
Æðsta stig fálkaorðunnar er keðja ásamt stórkrossstjörnu, sem aðeins þjóðhöfðingjar fá, og síðan kemur stórkross. Magni segir það hafa vakið athygli sína að orðurnar hjá þýska fyrirtækinu eru frá lýðveldistímanum. Hann sjái ekki betur en að orðurnar séu ekta og þeim fylgi kassi.