Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að með fjárlögum fyrir árið 2010, en frumvarpið á að kynna í dag, þurfi væntanlega að stokka upp á spítalanum og fara út í umræður um hvaða starfsemi geti farið þar fram.
Mikil ólga er meðal starfsmanna spítalans vegna niðurskurðarins og Björn segist skilja vel áhyggjur þeirra. Óvissan sé mikil „en þegar næsta högg kemur verður að fara út í töluverða fækkun starfsfólks. Þá verðum við í miklum vandræðum,“ segir Björn.
Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélagsins, segir mikla ólgu ríkja meðal sjúkraliða. Margir séu að missa vinnuna um þessi mánaðamót eða að fá uppsögn. „Það logar hér allt saman,“ segir Kristín.