Tveir karlmenn voru handteknir síðdegis með reyksprengjur, flugelda og annan torkennilegan hlut, sem lögreglan telur að sé heimatilbúin sprengja. Verið er að skoða hlutinn, en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvað um sé að ræða. Þá er verið að yfirheyra mennina, sem voru að mótmæla á Austurvelli.
Lögreglan segir að mennirnir hafi verið með svokallaðar saltpéturssprengjur, eða reyksprengjur. Þær geta búið til mikinn reyk. Þeir voru einnig með flugelda í fórum sínum.
Mennirnir hafa ekki viljað tjá sig um hlutinn torkennilega. Þeir verða ákærðir að sögn lögreglu.